Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 023/2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 023/2018

Leiðrétt endurrit.

 

Mánudaginn 17. september 2018 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi til velferðarráðuneytisins, dags. 11. janúar 2018, kærði LEX lögmannsstofa, fyrir hönd Manna í vinnu ehf., (áður Verk1 ehf.), kt. 690598-3379, ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. janúar 2018, sbr. einnig bréf stofnunarinnar, dags. 29. nóvember og 14. desember 2017, um að ákvæði 7. gr. þjónustusamninga Manna í vinnu ehf. við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. janúar 2018, sbr. einnig bréf stofnunarinnar, dags. 29. nóvember og 14. desember 2017, um að ákvæði 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Í erindi kæranda kemur fram að í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 29. nóvember 2017, hafi komið fram það mat stofnunarinnar að ákvæði 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki samræmdist ekki ákvæði 7. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum. Tekið er fram í fyrrnefndu erindi til ráðuneytisins að í ákvæði 7. gr. umræddra þjónustusamninga komi fram að „Aðilar samnings þessa eru ásáttir um að í þeim tilvikum sem leigutaki óskar eftir því að ráða starfsmenn leigusala sem hafa unnið fyrir leigutaka beint til sín þá er leigutaki skuldbundinn til að greiða leigusala sem nemur 3 mánaða leigutíma. Leigutaki skuldbindur sig jafnframt til þess að óska ekki eftir beinni ráðningu á starfsmanni leigusala nema að höfðu samráði við leigusala hvort sem það er í gegnum aðra starfsmannaleigu, sem verktaka á verktakakennitölu, eða með öðrum beinum eða óbeinum hætti. Í þeim tilvikum skal leigutaki jafnframt greiða leigusala sem nemur 3 mánaða samningstíma.”

Í erindi kæranda kemur fram að í fyrrgreindu bréfi Vinnumálastofnunar frá 29. nóvember 2017 hafi þess verið krafist að kærandi afhenti staðfestingu þess efnis að umræddu ákvæði yrði ekki beitt í framkvæmd og að ný drög að þjónustusamningi kæranda við notendafyrirtæki yrðu afhend stofnuninni til yfirferðar. Kæranda hafi verið veittur frestur til 6. desember sama ár til þess að bregðast við efni bréfsins og hafi verið vísað til heimilda Vinnumálastofnunar til þess að stöðva starfsemi kæranda tímabundið, sbr. 11. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, sem og til að leggja dagsektir á kæranda, sbr. 11. gr. a sömu laga.

Í erindinu kemur jafnframt fram að kærandi hafi svarað bréfi Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 6. desember 2017, þar sem kærandi hafi mótmælt afstöðu stofnunarinnar þess efnis að umrætt ákvæði 7. gr. þjónustusamninga félagsins við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum. Hafi kærandi meðal annars vísað til þess að ekkert í umræddu ákvæði 7. gr. samninganna kæmi í veg fyrir að starfsmenn stofni til ráðningarsambands við notendafyrirtæki. Starfsmennirnir séu ekki aðilar að umræddum samningum og ekki væri verið að takmarka réttindi þeirra til að ráða sig til vinnu hjá nýjum aðila. Eini tilgangur ákvæðisins væri sá að leitast við að fyrirbyggja að notendafyrirtæki misnoti sér þjónustu kæranda sem eins konar atvinnumiðlun án þess að greiða fyrir þá þjónustu. Vakin var athygli á því að á bak við hvern starfsmann sem kærandi ráði til starfa liggi töluverður kostnaður, meðal annars vegna flutnings viðkomandi til landsins og umsýslu við nauðsynleg leyfi og gögn svo hver og einn geti hafið störf hér á landi.

Í erindi kæranda eru samskipti hans við Vinnumálastofnun rakin. Þannig hafi Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 14. desember 2017, veitt kæranda upplýsingar um að stofnunin hafi ekki fallist á sjónarmið hans og hafi hún því áréttað niðurstöðu sína frá 29. nóvember 2017 um að umrætt ákvæði í þjónustusamningum kæranda við notendafyrirtæki bryti gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur. Í bréfinu hafi Vinnumálastofnun krafist þess að kærandi afhenti staðfestingu þess efnis að umræddu ákvæði yrði ekki beitt í framkvæmd og að nýjum drögum að þjónustusamningi kæranda við notendafyrirtæki yrði afhent stofnuninni til yfirferðar. Drögunum ætti að skila fyrir 19. desember 2017 en að öðrum kosti tæki Vinnumálastofnun ákvörðun um beitingu dagsekta á grundvelli 11. gr. a laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum.

Jafnframt kemur fram í erindi kæranda til ráðuneytisins að Vinnumálastofnun hafi verið sent tölvubréf, dags. 2. janúar 2018, þar sem fylgt hafi með ný drög að þjónustusamningi kæranda við notendafyrirtæki. Í hinum nýju drögum hafi verið styttur um helming, úr þremur mánuðum í einn og hálfan mánuð, sá tími sem notendafyrirtæki væri gert að greiða leigu fyrir starfsmann kæranda sem leigður hafi verið til notendafyrirtækisins komi til beins ráðningarsambands milli notendafyrirtækisins og starfsmannsins. Til skýringar hafi verið vísað til þess að sú fjárhæð væri samkvæmt bestu upplýsingum kæranda í samræmi við gjaldtöku sem almennt tíðkist hjá atvinnumiðlunum. Jafnframt hafi því verið lýst yfir í tölvubréfinu að kærandi myndi ekki lengur beita hinu umdeilda ákvæði í eldri þjónustusamningum við notendafyrirtæki. Fram hafi komið að þrátt fyrir framangreint væri kærandi ekki sammála túlkun Vinnumálastofnunar og áskildi hann sér því rétt til að bera ágreining hans við Vinnumálastofnun um umrætt samningsákvæði undir ráðuneytið til úrskurðar.

Í erindi kæranda til ráðuneytisins kemur fram að þann 3. janúar 2018 hafi kæranda borist bréf Vinnumálastofnunar þar sem fram hafi komið að afstaða stofnunarinnar væri óbreytt þess efnis að stofnunin teldi að umrætt samningsákvæði bryti gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur þrátt fyrir breytingar kæranda í nýjum drögum að þjónustusamningi kæranda við notendafyrirtæki sem send hafi verið til stofnunarinnar. Í bréfi Vinnumálastofnunar hafi auk þess verið áréttuð beiðni um að kærandi afhenti staðfestingu þess efnis að umræddu ákvæði í eldri þjónustusamningum kæranda við notendafyrirtæki yrði ekki beitt í framkvæmd og að nýjum drögum að þjónustusamningi yrði skilað til yfirferðar hjá stofnuninni. Kærandi hafi fengið frest til 17. janúar 2018 til þess að bregðast við kröfum stofnunarinnar en fram hafi komið í bréfinu að yrði ekki orðið við framangreindum kröfum tæki Vinnumálastofnun ákvörðun um að leggja dagsektir á kæranda, sbr. 11. gr. a laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, sem gætu numið allt að 100.000 kr. á dag.

Í erindi kæranda til ráðuneytisins vísaði kærandi enn fremur til þess að algilt væri að aðrar starfsmannaleigur hér á landi væru með sambærileg ákvæði og um ræðir í máli þessu í þjónustusamningum sínum við notendafyrirtæki. Að mati kæranda væru samningar hans við notendafyrirtæki því í samræmi við það sem tíðkist á umræddum markaði hér á landi. Bendir kærandi í því sambandi á að Vinnumálastofnun beri í störfum sínum að fara að jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnslýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum. Fram kemur að kærandi telji að með því að stytta um helming þann tíma sem notendafyrirtæki sé gert að greiða leigu fyrir starfsmann kæranda sem leigður hafi verið til notendafyrirtækisins komi til beins ráðningarsambands milli notendafyrirtækisins og starfsmannsins sé um að ræða fjárhæð sem sé nálægt því sem gengur og gerist hjá atvinnumiðlunum hérlendis. Að mati kæranda sé umrætt ákvæði bæði málefnalegt og réttlætanlegt með vísan til þess að sé gjaldið fellt alfarið niður skapist tækifæri fyrir verktaka til að láta kæranda finna starfsmenn og leggja út í tilheyrandi kostnað og umstang í því sambandi en ráða þá síðan til starfa hjá sér við fyrsta tækifæri. Í þessu sambandi bendir kærandi á að hann þurfi oft að standa straum af kostnaði við flutning starfsmanna til landsins, svo sem í tengslum við ferðakostnað þeirra, þóknanir til erlendra ráðningarfyrirtækja sem og umsýslukostnað vegna gagna og leyfa hér á landi.

Í erindi sínu til ráðuneytisins, dags. 11. janúar 2018, fór kærandi fram á að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar yrði frestað á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, þar til efnislegur úrskurður ráðuneytisins lægi fyrir í málinu. Í ljósi þess var með bréfi ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. 18. janúar 2018, óskað eftir umsögn stofnunarinnar um þann hluta erindis kæranda er laut að beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa og var frestur veittur til 23. janúar sama ár.

Ráðuneytinu barst umsögn Vinnumálastofnunar 23. janúar 2018 þar sem fram kemur að stofnunin sé eftirlitsaðili með lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, með síðari breytingum, sbr. 9. gr. laganna, og hafi Vinnumálastofnun þann 28. september 2017 verið tilkynnt um að kærandi veitti starfsmannaleiguþjónustu á íslenskum vinnumarkaði.

Fram kemur í umsögn Vinnumálastofnunar að það sé mat stofnunarinnar að 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki sem mæli fyrir um að notendafyrirtæki beri að greiða kæranda þriggja mánaða leigutíma fyrir starfsmann sem leigður hafi verið til notendafyrirtækisins komi til beins ráðningarsambands milli notendafyrirtækisins og starfsmannsins brjóti gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum. Með umræddu ákvæði í þjónustusamningum kæranda við notendafyrirtæki sé verið að takmarka rétt starfsmanns til þess að ráða sig til starfa hjá notendafyrirtæki sem leigt hefur hann til starfa samkvæmt þjónustusamningi við kæranda enda ljóst að notendafyrirtæki sjái síður hag sinn í því að ráða til sín starfsmann sem hann hefur fengið leigðan frá kæranda ef hann ber sérstakan kostnað af því.

Að mati stofnunarinnar ætti umsýslukostnaður kæranda vegna ráðninga starfsmanna að vera innifalinn í verði til notendafyrirtækja. Telur Vinnumálastofnun að slíkur kostnaður sé væntanlega eðlilegur kostnaðarliður í rekstri hverrar starfsmannaleigu og því hvorki réttlætanleg skýring á gjaldtöku af starfsmönnum sem myndi brjóta gegn 5. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, né á þeirri gjaldtöku sem um ræður í þessu máli sem brjóti gegn 7. gr. laganna. Fram kemur að Vinnumálastofnun hafi krafist þess að kærandi staðfesti að hann myndi ekki beita í framkvæmd umræddu ákvæði í eldri þjónustusamningum kæranda við notendafyrirtæki auk þess sem stofnunin hafi krafist þess að kærandi afhenti henni til yfirferðar drög að nýjum þjónustusamningi kæranda við notendafyrirtæki þar sem bætt hafi verið úr annmörkum í samræmi við fyrirmæli stofnunarinnar.

Í umsögn Vinnumálastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 3. janúar 2018, um þá niðurstöðu stofnunarinnar að afstaða hennar væri enn óbreytt þrátt fyrir að styttur hafi verið sá leigutími sem notendafyrirtæki væri gert að greiða fyrir starfsmann sem leigður hafi verið til notendafyrirtækisins komi til beins ráðningarsambands milli notendafyrirtækisins og starfsmannsins. Í því sambandi hafi stofnunin vísað til röksemda í fyrri bréfum sínum vegna málsins. Enn á ný hafi stofnunin krafist þess að drög að nýjum þjónustusamningi yrðu afhent henni ásamt staðfestingu á því að kærandi myndi ekki beita í framkvæmd umræddu ákvæði í eldri þjónustusamningum kæranda við notendafyrirtæki. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að yrði ekki farið að kröfum Vinnumálastofnunar eða ófullnægjandi gögn lögð fram að loknum fresti tæki stofnunin ákvörðun um að leggja dagsektir á kæranda, sbr. 11. gr. a laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum. Kæranda hafi verið veittur frestur til 10. janúar 2018 til þess að koma að andmælum um fyrirætlan stofnunarinnar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, með síðari breytingum, og til 17. janúar 2018 til þess að verða við kröfum stofnunarinnar.

Auk þess kemur fram í umsögn Vinnumálastofnunar að með bréfi, dags. 11. janúar 2018, hafi kærandi mótmælt framangreindri afstöðu stofnunarinnar og upplýst að ákvörðun hennar yrði kærð til velferðarráðuneytis. Jafnframt hafi í bréfinu verið óskað eftir því að Vinnumálastofnun myndi fallast á að leggja ekki dagsektir á kæranda á meðan ráðuneytið hefði erindið til úrlausnar. Fram kemur í umsögn Vinnumálastofnunar að stofnunin hafi svarað bréfi kæranda á þá leið að samkvæmt meginreglu stjórnsýslulaga fresti stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, með síðari breytingum. Með vísan til þess yrði ekki fallist á beiðni kæranda um að stofnunin myndi falla frá ákvörðun um álagningu dagsekta.

Jafnframt kemur fram í umsögn Vinnumálastofnunar að 18. janúar 2018 hafi Vinnumálastofnun sent kæranda bréf með birtingarþjónustu þar sem tilkynnt hafi verið um ákvörðun stofnunarinnar um að leggja dagsektir á starfsmannaleigu kæranda í samræmi við 11. gr. a laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, vegna brots gegn 7. gr. laganna. Þegar daginn eftir eða 19. janúar 2018 hafi Vinnumálastofnun borist svar kæranda þar sem fram hafi komið að þjónustusamningur kæranda við notendafyrirtæki hafi verið leiðréttur að beiðni stofnunarinnar. Auk þess hafi það verið staðfest að 7. gr. eldri þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki yrði ekki beitt í framkvæmd. Fram kemur að meðfylgjandi svari kæranda hafi verið drög að nýjum þjónustusamningi kæranda við notendafyrirtæki. Vinnumálastofnun hafi í kjölfarið staðfest móttöku á gögnunum og upplýst að stofnunin hafi fallið frá ákvörðun um beitingu dagsekta í máli kæranda.

Með vísan til þess að kærandi hafði gert breytingar á ákvæði 7. gr. þjónustusamninga sinna við notendafyrirtæki og hafði þannig komið til móts við tilmæli Vinnumálastofnunar um úrbætur og þess að kærandi hafði staðfest við Vinnumálastofnun að ákvæði 7. gr. eldri þjónustusamninga yrði ekki beitt í framkvæmd gagnvart notendafyrirtækjum sem og þess að Vinnumálastofnun hafði upplýst að stofnunin hefði fallið frá ákvörðun sinni um beitingu dagsekta í máli kæranda sendi ráðuneytið kæranda bréf, dags. 23. janúar 2018, þar sem bent var á að heimilt væri að draga til baka erindi kæranda til ráðuneytisins. Veittur var frestur til 31. janúar sama ár til að bregðast við bréfi ráðuneytisins.

Ráðuneytinu barst bréf frá kæranda, dags. 31. janúar 2018, þar sem fram kom að kærandi teldi ekki tilefni til þess að draga erindi sitt til ráðuneytisins, dags. 11. janúar sama ár, til baka. Að mati kæranda hafi hann neyðst til að senda Vinnumálastofnun uppfærðan samning líkt og stofnunin hafi krafist. Enn fremur hafi Vinnumálastofnun ekki fallist á að veita kæranda frest til að mæta kröfum stofnunarinnar á meðan kærumál væri til meðferðar hjá ráðuneytinu. Þá hafi Vinnumálastofnun áréttað að stofnunin myndi beita kæranda dagsektum ef félagið yrði ekki við kröfum um að breyta umræddu samningsákvæði í samræmi við kröfur stofnunarinnar.

Í bréfinu kom jafnframt fram að kærandi telji að réttaráhrif ákvarðana Vinnumálastofnunar séu ekki eingöngu bundin við ákvörðun um dagsektir heldur leiði krafa stofnunarinnar, um að nýir samningar kæranda við notendafyrirtæki hafi ekki að geyma það ákvæði sem mál þetta snýst um, til þess að kærandi þurfi að gera samninga við notendafyrirtæki sem eru án umrædds ákvæðis. Að mati kæranda leiði það til þess að kærandi verði fyrir miklu tjóni og sé ákvörðun Vinnumálastofnunar því afar íþyngjandi fyrir kæranda. Í bréfinu var áréttað af hálfu kæranda að Vinnumálastofnun beri í störfum sínum að fara að jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar en reglan feli það í sér að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felist því að mati kæranda að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Jafnræðisreglan hafi verið lögfest með 11. gr. stjórnsýslulaga, með síðari breytingum, en ákvæðið byggist á hinni óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttar um jafnrétti borgaranna. Meginreglan sem lagaákvæðið byggist á hafi mun víðtækara gildissvið en fram komi í ákvæðinu sjálfu þar sem segi að hún skuli gilda þegar stjórnvöld taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Að mati kæranda sé hins vegar ekki unnt að gagnálykta á þann veg að stjórnvöld þurfi ekki að gæta jafnræðis borgaranna í öðrum tilvikum.

Enn fremur kemur fram í bréfinu að kærandi hafi áreiðanlega vitneskju um að aðrar starfsmannaleigur sem starfa hér á landi hafi í gildi sambærileg ákvæði í þjónustusamningum sínum við notendafyrirtæki og umrætt ákvæði 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki. Efni umræddra ákvæða sé á þá leið að í þeim tilvikum þar sem komi til ráðningarsambands milli notendafyrirtækis og starfsmanns sem hlutaðeigandi starfsmannaleiga hafi útvegað notendafyrirtækinu skuli notendafyrirtækið greiða starfsmannaleigunni ákveðna fjárhæð. Slík ákvæði séu venja fremur en undantekning í samningum starfsmannaleigna hérlendis við notendafyrirtæki að mati kæranda. Fram kemur að kærandi viti hins vegar ekki til þess að Vinnumálastofnun hafi viðhaft sambærilegar aðgerðir gagnvart öðrum hérlendum starfsmannaleigum vegna umræddra ákvæða og gagnvart kæranda. Að mati kæranda virðist sem stofnunin hafi af einhverjum ástæðum tekið ákvörðun um að grípa til afar harkalegra aðgerða gagnvart kæranda vegna umrædds ákvæðis í þjónustusamningum hans við notendafyrirtæki en láta að sama skapi sambærileg ákvæði annarra starfsmannaleigna viðgangast. Veki það furðu kæranda enda ætti Vinnumálastofnun að hafa undir höndum afrit af öllum þjónustusamningum hérlendra starfsmannaleigna við notendafyrirtæki, sbr. ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum. Að mati kæranda hafi afleiðingar af slíkri ómálefnalegri aðferð Vinnumálastofnunar orðið til þess að samskeppnisstaða kæranda hafi veikst á þeim markaði sem hann starfi á. Hafi komið upp tilvik þar sem kærandi hafi ráðist í nokkurn kostnað við ráðningu starfsmanna sem notendafyrirtæki hafi síðar ráðið til sín skömmu eftir að þeir hófu störf hjá hlutaðeigandi notendafyrirtæki á grundvelli þjónustusamnings kæranda við notendafyrirtækið. Að mati kæranda virðist sem að notendafyrirtæki hafi áttað sig á því að kærandi sé í veikari stöðu en aðrar starfsmannaleigur að þessu leyti og að þau hafi nýtt sér þá veiku stöðu óhindrað.

Í bréfinu fer kærandi yfir hlutverk starfsmannaleigna ásamt efni laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB frá 19. nóvember 2008 um vinnu á vegum starfsmannaleigu. Að mati kæranda þurfi starfsmannaleigur að vera viðurkenndar sem vinnuveitendur en þeim sé ætlað að stuðla að sveigjanleika til að mæta ákveðnum aðstæðum sem kunni að koma upp í rekstri félaga. Ítrekaði kærandi enn fremur áður framkomin sjónarmið sín í málinu.

Þann 23. mars 2018 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp úrskurður þar sem frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar var hafnað.

Þar sem umsögn Vinnumálstofnunar, sem barst ráðuneytinu 23. janúar 2018, laut ekki einvörðungu að þeim hluta erindis kærana er laut að beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa heldur að erindi kærana í heild sinni þótti ekki ástæða til að óska eftir frekari umsögn Vinnumálastofnunar í málinu. Hins vegar sendi ráðuneytið kæranda bréf, dags. 13. apríl 2018, þar sem óskað var nánari skýringa á efni 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki. Í bréfi ráðuneytisins var meðal annars óskað eftir mati kæranda á ætluðum beinum og eftir atvikum óbeinum áhrifum ákvæðisins á hugsanlegar ákvarðanir notendafyrirtækja um að ráða til sín starfsmenn sem þeir hafi haft á leigu frá kæranda og þá einnig á tækifæri slíkra starfsmanna til að ráða sig til starfa hjá notendafyrirtæki þar sem um væri að ræða beint ráðningarsamband milli notendafyrirtækisins og starfsmannsins.

Í bréfi sínu óskaði ráðuneytið enn fremur eftir því að kærandi veitti upplýsingar um þau málefnalegu rök sem lægju að baki því að notendafyrirtæki þurfi að greiða sem nemur þriggja mánaða greiðslum fyrir leigu á starfsmanni í tilvikum þegar kemur til ráðningarsambands á milli notendafyrirtækisins og starfsmanns sem notendafyrirtækið hefur leigt af kæranda en notendafyrirtækið geti hins vegar sagt upp þjónustusamningi við kæranda vegna sama starfsmanns með tólf daga uppsagnarfresti skv. 2. gr. þjónustusamninganna án þess að um sé að ræða tilteknar greiðslur frá hlutaðeigandi notendafyrirtæki til kæranda. Fram kemur í bréfinu að ein skýringanna sem hafi verið gefin á greiðslunum í fyrra tilvikinu í gögnum málsins sé kostnaður kæranda í tengslum við ráðningu starfsfólks, svo sem ferðakostnaður. Í ljósi þess óskaði ráðuneytið skýringa á því hver munurinn væri á kostnaði kæranda vegna ráðninga starfsfólks í framangreindum tveimur tilvikum og hver séu rökin fyrir því að kostnaður kæranda við ráðningu starfsfólks leggist hugsanlega mismunandi á notendafyrirtæki eftir því hvernig lok þjónustusamningsins verða. Þá var einnig óskað upplýsinga um hver rökin væru fyrir því að kostnaður kæranda við ráðningu starfsfólks væri ekki almennt inni í viðskiptaforskrift starfsmannaleigunnar þannig að kostnaðurinn jafnist út á milli þjónustusamninga við notendafyrirtæki án tillits til þess hvort starfsmenn sem leigðir séu út hverju sinni hafi starfað lengi hjá starfsmannaleigunni eða hafi eingöngu verið ráðnir til að sinna tilteknum verkefnum. Var kæranda veittur frestur til 30. apríl 2018 til að bregðast við bréfi ráðuneytisins.

Ráðuneytið sendi ítrekunarbréf til kæranda 8. maí 2018 þar sem upplýst var að hafi umbeðnar upplýsingar ekki borist ráðuneytinu fyrir 17. maí sama ár liti ráðuneytið svo á að kærandi sæi ekki ástæðu til að tjá sig frekar um málið og að ráðuneytið myndi því taka málið til efnislegrar afgreiðslu.

Í svarbréfi kæranda, dags. 16. maí 2018, ítrekaði kærandi fyrri sjónarmið sín í málinu auk þess sem nefnd voru sérstaklega nokkur atriði sem kærandi telur mikilvæg varðandi starfsmannaleigur og þá þjónustu sem þær veiti. Að mati kæranda eru starfsmannaleigur fyrirtæki sem ráði til sín starfsfólk sem ýmist sé ráðið tímabundið eða ótímabundið. Verktakafyrirtæki séu helstu viðskiptavinir starfsmannaleigna sem nýti sér þjónustu þeirra til að ráða við tímabundin verkefni sem þau hafi að öðrum kosti ekki starfsmenn til að sinna. Kærandi telur að starfsmannaleigur uppfylli þannig ákveðna þörf á vinnumarkaði og njóti allir góðs af starfsemi þeirra, svo sem starfsmenn, notendafyrirtæki og starfsmannaleigan sjálf.

Fram kemur að kærandi telur að skortur sé á starfsfólki á innlendum vinnumarkaði og hafi því reynst nauðsynlegt fyrir notendafyrirtæki að ráða erlenda starfsmenn til starfa. Að mati kæranda hafi notendafyrirtæki þrjár leiðir til að ráða starfsfólk og rekur kærandi þær leiðir nánar í bréfi sínu en þar á meðal geti notendafyrirtæki farið til starfsmannaleigu og gert samning um leigu á starfsmönnum. Tekur kærandi fram að tímagjald sem notendafyrirtæki þurfi að greiða starfsmannaleigu sé vissulega hærra en sem nemur launum starfsmannsins vegna álagningar starfsmannaleigunnar en á móti losni notendafyrirtækið við umstang og kostnað sem fylgi því að ráða starfsmann erlendis frá.

Að mati kæranda sé umrætt ákvæði 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki því nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að notendafyrirtæki misnoti þjónustu kæranda til að komast hjá þeim kostnaði og því umstangi sem fylgi því að ráða starfsmann erlendis frá. Án þessa ákvæðis í umræddum þjónustusamningum sé kærandi varnarlaus gagnvart slíku og viðskiptamódeldið ónýtt. Ákvæði 7. gr. umræddra samninga sé því ætlað að hafa áhrif á hegðun notendafyrirtækja að þessu leyti þannig að minni líkur séu á því en ella að þau misnoti starfsemi kæranda með framangreindum hætti. Að því er varði starfsmanninn verði ekki séð að mati kæranda að umrætt ákvæði hafi nokkur áhrif á ákvarðanir hans um að ráða sig til starfa hjá notendafyrirtæki. Telur kærandi því að ákvæðið beinist ekki að starfsmönnum starfsmannaleigunnar með nokkrum hætti.

Sá þriggja mánaða tími sem miðað hafi verið við í 7. gr. umræddra þjónustusamninga byggi að mati kæranda ekki á öðru en því að um sé að ræða fjárhæð sem ætlað sé að mæta þeim kostnaði sem kærandi verði fyrir við ráðningu starfsmanna. Tekur kærandi fram að vissulega sé rétt hjá ráðuneytinu að kærandi leitist við að endurheimta þennan kostnað smám saman með því gjaldi sem tekið sé fyrir leigu á starfsmanni og starfi starfsmaður hjá kæranda um langt skeið endurheimti kærandi þannig þennan kostnað. Að mati kæranda sé honum þannig í hag að halda í starfsmenn sína til lengri tíma fremur en skemmri og þá ekki síst til að komast hjá því að ráða í sífellu nýja starfsmenn.

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 12. gr. laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, er heimilt að kæra til velferðarráðuneytis ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin hefur verið á grundvelli laganna. Í máli þessu er kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. janúar 2018, um að 7. gr. þjónustusamninga tiltekinnar starfsmannaleigu við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, gilda lögin um starfsmannaleigur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra. Jafnframt gilda lögin um skyldur notendafyrirtækja í tengslum við samning þeirra við starfsmannaleigur. Þannig gilda lögin um þá aðila sem samkvæmt þjónustusamningi leigðu út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, skal hver sá sem vill veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi tilkynna um það til Vinnumálastofnunar eigi síðar en sama dag og starfsemin hefst í fyrsta skipti. Öðrum en þeim sem eru skráðir hjá Vinnumálastofnun er óheimilt að veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, var tekið fram að á íslenskum vinnumarkaði sé meginreglan sú að starfsmenn séu ráðnir ótímabundið beint til vinnuveitanda enda ríki hér ákveðinn sveigjanleiki í ráðningum sem ætlað sé að auðvelda fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í starfsemi þeirra. Væri frumvarpinu ekki ætlað að breyta þeirri óskráðu reglu. Hið sama kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 34/2013, um breytingu á lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum.

Því eftirliti sem Vinnumálastofnun er falið að sinna samkvæmt lögum um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, á þeim tíma sem hér á við, var lýst í þágildandi 9. gr. laganna. Þar var meðal annars gert ráð fyrir að bærist stofnuninni rökstudd kvörtun um að starfsmannaleiga hefði brotið gegn ákvæðum laganna bæri henni að kanna málið frekar. Kæmist stofnunin að þeirri niðurstöðu að starfsmannaleiga hefði brotið gegn ákvæðum laganna skyldi hún krefjast þess með hæfilegum fyrirvara að starfsmannaleigan starfaði í samræmi við lög. Hlutverk Vinnumálastofnunar samkvæmt þágildandi 9. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, var því að hafa eftirlit með því að atvinnurekendur uppfylltu skyldur sínar samkvæmt fyrrnefndum lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Gildandi 9. gr. er efnislega samhljóða en þar hefur verið skerpt enn frekar á eftirlitishlutverki stofnunarinnar, sbr. lög nr. 75/2018. Jafnframt er kveðið á um í 1. mgr. 10. gr. laganna að starfsmannaleiga skuli láta Vinnumálastofnun í té þær upplýsingar og gögn er stofnunin telur nauðsynleg til að fylgjast með framkvæmd laganna, þ.m.t. þjónustusamninga, ráðningarsamninga og önnur gögn varðandi ráðningarkjör.

Enn fremur skal Vinnumálastofnun sjá til þess að starfsmannaleiga grípi til viðeigandi úrbóta í tilvikum er hún hefur ekki sinnt skyldum sínum á viðunandi hátt að mati stofnunarinnar, sbr. 11. gr. og þágildandi 11. gr. a laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, en í þeim ákvæðum laganna er fjallað um þær ráðstafanir sem Vinnumálastofnun getur gripið til þegar starfsmannaleigur fara ekki að tilmælum stofnunarinnar um úrbætur vegna annmarka sem brjóta gegn lögunum.

Það er lagaleg skylda starfsmannaleigu að grípa til úrbóta í tilvikum þegar hún fer ekki að lögum um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, að mati Vinnumálastofnunar. Að öðrum kosti hefur Vinnumálastofnun heimildir til að beita hlutaðeigandi starfsmannaleigu þvingunum þar til hún hefur farið að tilmælum stofnunarinnar. Í 11. gr. laganna er kveðið á um að hafi Vinnumálastofnun krafist þess með hæfilegum fyrirvara að starfsmannaleiga fari að lögum og hafi úrbætur ekki verið gerðar að frestinum liðnum geti Vinnumálastofnun krafist þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi starfsmannaleigunnar tímabundið þangað til úrbætur hafi verið gerðar. Í þágildandi 1. mgr. 11. gr. a. laganna var kveðið á um að færi starfsmannaleiga ekki að lögunum gæti Vinnumálastofnun krafist þess að hlutaðeigandi fyrirtæki bætti úr annmörkum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um dagsektir skv. þágildandi 1. mgr. ákvæðisins skyldi tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt því fyrirtæki sem hún beindist að en dagsektir gátu numið allt að 100.000 kr. hvern dag og við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skyldi meðal annars líta til fjölda starfsmanna fyrirtækisins og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur væri, sbr. þágildandi 2. mgr. 11. gr. a. laganna.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 137/2011, um breytingu á lögum um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, kemur fram að mikilvægt þyki að styrkja heimildir Vinnumálastofnunar til að beita þvingunarúrræðum gagnvart starfsmannaleigum sem virða ekki ákvæði laganna. Jafnframt verði að telja það eitt af lykilatriðum þess að stjórnvöld hafi fullnægjandi yfirsýn yfir innlendan vinnumarkað að fyrirtæki sem veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi, þar á meðal erlendar starfsmannaleigur, virði ákvæði laganna. Með vísan til þess sé í frumvarpinu lagt til að fari starfsmannaleigur ekki að lögunum geti Vinnumálastofnun krafist þess að úrbætur verði gerðar innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Þannig sé gert ráð fyrir að þessi heimild eigi við hvort sem starfsmannaleigur láti hjá líða að tilkynna um fulltrúa eða skipti á þeim, eða að sinna öðrum skyldum sínum samkvæmt ákvæðum laganna.

Ágreiningurinn í máli þessu lýtur að því hvort kæranda, sem rekur starfsmannaleigu, sé heimilt að kveða á um í þjónustusamningum sínum við notendafyrirtæki að notendafyrirtæki greiði kæranda tiltekna fjárhæð komi til ráðningarsambands milli notendafyrirtækisins og starfsmanns sem hlutaðeigandi starfsmannaleiga hefur útvegað notendafyrirtækinu, sbr. umrædda 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki. Með öðrum orðum lýtur ágreingurinn í máli þessu að því hvort framangreint ákvæði 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum.

Samkvæmt 7. gr. laga um starfsmannaleigur er starfsmannaleigu óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsambands við það fyrirtæki. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess er varð að 7. gr. laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, kemur fram að lagt sé til að „starfsmannaleigu verði óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsambands við það fyrirtæki, að teknu tilliti til ákvæða um uppsagnarfrests.“ Enn fremur er tekið fram að ákvæðinu væri „meðal annars ætlað að stuðla að beinum ótímabundnum ráðningum þannig að sjái notendafyrirtæki hag sinn í að ráða hlutaðeigandi starfsmann til sín með hefðbundnum hætti [væri] starfsmannaleigunni óheimilt að koma í veg fyrir að starfsmaðurinn geti tekið starfinu.“

Fram kemur í gögnum málsins að í 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki sé kveðið á um að notendafyrirtæki beri að greiða kæranda sem nemi þriggja mánaða leigu fyrir viðkomandi starfsmann komi til ráðningarsambands milli notendafyrirtækisins og starfsmannsins sem leigður hefur verið til notendafyrirtækisins af kæranda. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að kæranda þyki fyrrnefnt ákvæði í þjónustusamningum sínum við notendafyrirtæki nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að notendafyrirtæki misnoti sér þjónustu kæranda til að koma sér undan kostnaði í tengslum við ráðningu starfsfólks og þá sérstaklega þess starfsfólks sem kemur erlendis frá, svo sem hvað varðar ferðakostnað. Enn fremur kemur fram í gögnum málsins að það sé þannig eini tilgangur umrædds ákvæðis að mati kæranda að leitast við að fyrirbyggja að notendafyrirtæki misnoti sér þjónustu kæranda sem eins konar atvinnumiðlun án þess að greiða fyrir þá þjónustu og ákvæðinu því ætlað að hafa áhrif á hegðun notendafyrirtækja að þessu leyti en það beinist hins vegar ekki að hlutaðeigandi starfsmönnum með nokkrum hætti.

Ráðuneytið fellst á það með kæranda að það verði að teljast eðlilegt að hluti þess endurgjalds sem starfsmannaleiga ákveður að notendafyrirtæki greiði fyrir leigu á starfsmanni sé til kominn vegna kostnaðar starfsmannaleigunnar við ráðningu starfsfólks ásamt öðrum kostnaði sem starfsmannaleigan ber vegna starfsmanna sinna. Er það til þess fallið að rekstur hlutaðeigandi starfsmannaleigna beri sig til lengri tíma. Það er jafnframt álit ráðuneytisins að almennt fylgi því ákveðin áhætta að leggja út í kostnað vegna ráðninga starfsmanna þar sem oft er bæði erfitt að segja fyrir um það hvernig starfsmaður komi til með að standa sig í starfi og í hvað langan tíma viðkomandi á eftir að starfa hjá þeim sem ræður hann til starfa. Er það enn fremur álit ráðuneytisins að það sé almennt hagur vinnuveitenda að góðir starfsmenn starfi sem lengst hjá þeim og verður að ætla að þetta eigi við um flesta ef ekki alla vinnuveitendur. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi telur meðal annars að notendafyrirtæki séu í einhverjum tilvikum að koma sér hjá áhættu í tengslum við ráðningu starfsmanna með því að leigja starfsmenn í gegnum starfsmannaleigu og sé tilgangur umrædds ákvæði 7. gr. samninga kæranda við notendafyrirtæki að takmarka þessa áhættu í rekstri hans.

Við mat á því hvort efni 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur verður að mati ráðuneytisins meðal annars að líta til þeirra sjónarmiða sem liggja að baki ákvæðinu í umræddum samningum kæranda við notendafyrirtæki sem og samninganna í heild. Þegar litið er til efnis þjónustusamnings kæranda við notendafyrirtæki í heild kemur fram að meðal annars er gert ráð fyrir að heimilt sé að segja samningi um leigu á starfsmanni upp með tólf daga uppsagnafresti án þess að komi til frekari greiðslna af hálfu notendafyrirtækis, sbr. 2. gr. samningsins, en kveðið er á um í ákvæðinu hvernig tilkynna skuli um uppsögn til kæranda.

Í ljósi framangreinds óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá kæranda með bréfi, dags. 13. apríl 2018, um þau málefnalegu rök sem lægju að baki því að samkvæmt þjónustusamningi kæranda við notendafyrirtæki þurfi notendafyrirtæki að greiða kæranda sem nemur þriggja mánaða greiðslum fyrir leigu á starfsmanni í þeim tilvikum þegar kemur til ráðningarsambands á milli notendafyrirtækisins og starfsmanns sem notendafyrirtækið hefur leigt af kæranda en notendafyrirtækið geti hins vegar sagt upp þjónustusamningi við kæranda vegna sama starfsmanns með tólf daga uppsagnarfresti skv. 2. gr. þjónustusamningsins án þess að um sé að ræða tilteknar greiðslur frá hlutaðeigandi notendafyrirtæki til kæranda. Í því sambandi óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir skýringum á því hver munurinn væri á kostnaði kæranda vegna ráðninga starfsfólks í þessum tveimur mismunandi tilvikum og hver væru rökin fyrir því að kostnaði við ráðningu starfsfólks væri þannig ætlað að leggjast með mismunandi hætti á notendafyrirtæki eftir því hvernig lok þjónustusamningsins kæmu til. Í svarbréfi sínu til ráðuneytisins, dags. 16. maí 2018, ítrekaði kærandi áður framkomin sjónarmið sín varðandi 7. gr. umræddra samninga án þess að svara spurningum ráðuneytisins nánar, svo sem með því að skýra nánar hvað fælist í framangreindum mismun eftir því hvernig lok þjónustusamnings koma til.

Í bréfi sínu, dags. 13. apríl 2017, óskaði ráðuneytið jafnframt eftir upplýsingum um ástæður þess að kostnaður kæranda við ráðningu starfsfólks væri ekki almennt inni í viðskiptaforskrift starfsmannaleigunnar þannig að hann jafnaðist út á milli þjónustusamninga við notendafyrirtæki án tillits til þess hvort starfsmenn sem leigðir væru út hverju sinni hafi starfað lengi hjá starfsmannaleigunni eða hafi eingöngu verið ráðnir til að sinna tilteknum verkefnum. Í svarbréfi kæranda frá 16. maí 2018 kom fram að kærandi leitaðist við að endurheimta umræddan kostnað smám saman með því gjaldi sem tekið væri fyrir leigu á starfsmönnum. Starfi starfsmaður lengi hjá kæranda endurheimti hann þannig þennan kostnað og væri það honum því í hag að starfsmenn starfi hjá honum til lengri tíma fremur en skemmri.

Að mati ráðuneytisins verður ekki séð að kostnaður kæranda vegna ráðningar starfsmanns geti almennt talist meiri eða áhættan af ráðningu hans meiri í þeim tilvikum þegar kemur til ráðningarsambands á milli hans og notendafyrirtækis sem hefur leigt hann af kæranda heldur en er til staðar þegar notendafyrirtæki segir þjónustusamningi við kæranda upp vegna leigu á starfsmanni. Í fyrrnefnda tilvikinu er hins vegar gert ráð fyrir umræddum greiðslum frá notendafyrirtæki til kæranda sem ekki er gert ráð fyrir í síðarnefnda tilvikinu. Að mati ráðuneytisins má enn fremur ætla að áhættan sé meiri í síðarnefnda tilvikinu þar sem starfsmannaleigan þarf þá alla jafna áfram að greiða starfsmanni laun samkvæmt ráðningarsamningi hans við félagið í einhvern tíma eða þar til samið hefur verið um leigu starfsmannsins til annars notendafyrirtækis eða eftir atvikum í uppsagnarfresti fáist ekki nýtt verkefni fyrir hann eftir að notendafyrirtæki hefur sagt upp þjónustusamningi um leigu á starfsmanninum. Í fyrrnefnda tilvikinu verður að gera ráð fyrir að starfsmaður hafi sagt upp störfum hjá starfsmannaleigunni til að ráða sig til starfa hjá notendafyrirtækinu og því ekki nauðsyn fyrir kæranda að greiða honum laun í uppsagnarfresti fari kærandi ekki fram á vinnuframlag hans á þeim tíma.

Þá verður að mati ráðuneytisins einnig að líta til þess að gjald það sem hér er rætt um er lagt á notendafyrirtæki samkvæmt samningi kæranda við notendafyrirtæki í umræddum tilvikum án tillits til þess í hversu langan tíma viðkomandi starfsmaður hefur unnið hjá kæranda, hver raunkostnaður kæranda við ráðningu hans hefur verið, hvort um nýráðinn starfmann kæranda hefur verið að ræða eða hver gildisstími þjónustusamningsins hefur verið hverju sinni.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telur að umrætt samningsákvæði gildi eingöngu meðan það verk sem viðkomandi samningur lýtur að hverju sinni standi yfir. Telur kærandi að það sé heimilt samkvæmt 7. gr. laganna þar sem ákvæðið kveði á um að eingöngu sé óheimilt að takmarka rétt starfsmannsins að stofna síðar til ráðningasambands við það notendafyrirtæki sem á í hlut.

Í þessu sambandi verður að mati ráðuneytisins að líta til þess að starfsmanni starfsmannaleigu er ávallt heimilt að segja upp störfum hjá starfsmannaleigu að teknu tilliti til ákvæða um uppsagnarfrest í ráðningarsamningi milli aðila líkt og öðrum þátttakendum á vinnumarkaði. Óheimilt er samkvæmt lögum og kjarasamningum að semja um annað fyrirkomulag í ráðningarsamningi. Á þetta við hvort sem ráðningarsamningur er tímabundinn eða ótímabundinn. Ráðuneytið gerir því athugasemdir við að áskilið sé í þjónustusamningi kæranda við notendafyrirtæki að notendafyrirtækið hafi samráð við kæranda áður en það býður starfsmanni sem það hefur leigt af kæranda starf. Eðlilegt er að notendafyrirtækið hafi beint samband við starfsmanninn sjálfan sem er þá frjálst að meta hvort hann vilji skipta um starf. Komi til þess að starfsmaður starfsmannaleigu skipti um starf verður að gera ráð fyrir að starfsmaðurinn standi við skuldbindingar sínar gagnvart vinnuveitanda sínum á grundvelli ráðningarsamnings hans áður en hann getur hafið störf hjá öðrum vinnuveitenda hvort sem sá aðili hafi áður gert þjónustusamning við starfsmannaleigu um leigu á starfsmanninum eða um er að ræða annan vinnuveitanda. Geta þær skuldbindingar falist í því að starfsmaður gegni starfi sínu áfram hjá hlutaðeigandi starfsmannaleigu þann tíma sem nemur uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi enda náist ekki samkomulag milli starfsmanns og starfsmannaleigunnar um önnur starfslok. Að mati ráðuneytisins hefur ákvæði 7. gr. laga um starfsmannaleigur þar engin áhrif enda tekið fram í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess er varð að umræddri 7. gr. laganna að taka skuli tillit til ákvæða um uppsagnarfrest í þeim tilvikum þegar starfsmaður hættir störfum hjá starfsmannaleigu. Telja verður að á sama hátt sé ákvæðinu hvorki ætlað að koma í veg fyrir að litið sé á starfsmannaleigur með sama hætti og aðra vinnuveitendur né hafa áhrif á lengd starfstíma starfsmanna hjá starfsmannaleigum. Ætla verður að tilgangur 7. gr. laga um starfsmannaleigur sé þannig eingöngu að koma í veg fyrir að starfsmannaleiga geti takmarkað rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna til ráðningarsambands við það fyrirtæki eftir að þjónustusamningur hefur verið gerður milli starfsmannaleigu og fyrirtækisins um ráðningu hans.

Það er því álit ráðuneytisins að í máli þessu liggi ekki málefnaleg sjónarmið að baki því að leggja umrætt gjald á notendafyrirtæki í þeim tilvikum þegar kemur til ráðningarsambands milli notendafyrirtækis og starfsmanns sem notendafyrirtækið hefur leigt af starfsmannaleigu kæranda. Að mati ráðuneytisins þykir gjaldið eingöngu vera til þess fallið að draga úr líkum á því að notendafyrirtæki sjái sér hag í því að ráða til sín starfsmenn starfsmannaleigunnar og geti gjaldið þannig takmarkað rétt starfsmanna til að ráða sig til notendafyrirtækis í skilningi 7. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum. Að mati ráðuneytisins verður jafnframt að líta til þess að ætla má að kærandi geti með öðrum hætti en með umræddu gjaldi takmarkað þá áhættu sem fylgir því að leggja út í kostnað vegna ráðninga starfsfólks, svo sem með því að gera ráð fyrir kostnaði við ráðningu starfsfólks almennt inni í viðskiptaforskrift starfsmannaleigunnar þannig að kostnaðurinn jafnist út á milli þjónustusamninga við notendafyrirtæki án tillits til þess hvort starfsmenn sem leigðir eru út hverju sinni hafi starfað lengi hjá starfsmannaleigunni eða hafi eingöngu verið ráðnir til að sinna tilteknum verkefnum. Má einnig gera ráð fyrir að ekki sé í öllum tilvikum um nýráðna starfsmenn starfsmannaleigunnar að ræða þegar notendafyrirtæki ákveður að bjóða starfsmanni starfsmannaleigu starf sem starfsmaðurinn þiggur.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að efni 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki takmarki rétt starfsmanns starfsmannaleigu kæranda sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsambands við það fyrirtæki og brjóti því gegn 7. gr. laga um starfsmannaleigur, með síðari breytingum.

Í gögnum málsins heldur kærandi því fram að sambærileg ákvæði og hér um ræðir séu til staðar í samningum annarra starfsmannaleigna sem starfa hér á landi og ber því við að Vinnumálastofnun hafi ekki gert athugasemdir við efni og framkvæmd þeirra. Að mati kæranda sé það brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi þessa mun ráðuneytið á grundvelli almennra eftirlits- og stjórnunarheimilda sinna beina þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að stofnunin kanni hvort sambærileg ákvæði og um ræðir í máli þessu séu til staðar í þjónustusamningum annarra starfsmannaleigna sem starfa hér á landi og grípi til viðeigandi aðgerða telji hún ástæðu til hafi hún ekki þegar gert það.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. janúar 2018, um að ákvæði 7. gr. þjónustusamninga Manna í vinnu ehf., (áður Verk1 ehf.), kt. 690598-3379, brjóti gegn 7. gr. laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, skal standa.

 

Fyrir hönd félags- og jafnréttismálaráðherra

 

 

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir                                                           Bjarnheiður Gautadóttir

 

 

 

Ljósrit: Vinnumálastofnun

                B.t. Unnar Sverrisdóttur

                Kringlunni 1

                103 Reykjavík


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum